Múkk – Ástæður, meðhöndlun og leiðbeiningar af dýralækni

Múkk er húðbólga í kjúkubótinni á hestum, en kjúkubótina er að finna aftan til á kjúkunni, undir hófskegginu. Húðin er tiltölulega þunn og viðkvæm á þessu svæði. Fyrstu einkennin eru aukin fitumyndun í húðinni sem getur þróast í vessandi bólgu og sár. Hross geta orðið hölt af þessum sökum. Ekki er vitað með vissu af hverju múkk myndast en orsakirnar eru taldar vera fjölþátta:

  • Álag. Múkk er algengast í reiðhrossum í stífri þjálfun.
  • Fóðrun. Hross í þjálfun eru alla jafna á kraftmiklu fóðri, sérstaklega þegar líða tekur á vorið, og er ekki hægt að útiloka að það eigi þátt í þróun sjúkdómsins.
  • Umhverfi. Blautar stíur og gerði geta átt þátt í þróuninni en þó er múkk líka að finna þar sem umhverfisaðstæður eru hvað bestar.
  • Kuldi. Hross sem ganga á blautum mýrum á haustbeit geta fengið múkk þó svo þau séu ekki í notkun. Í þeim tilfellum virðist sem kuldinn og bleytan örvi fitumyndun húðarinnar um of.
  • Bakteríusýkingar. Þær fylgja venjulega í kjölfarið en geta verið frumorsök í einhverjum tilfellum. Múkk er þó ekki talið smitandi.

Misjafnt er hversu næm eða veik hross eru fyrir múkki og þar með hversu mikil áhrif umhverfisaðstæðurnar, sem nefndar eru hér að framan, hafa. Því getur það gerst að til dæmis eitt hross af tíu í sama húsi (þar sem umhverfisaðstæður eru sambærilegar) fær múkk en hin ekki. Álagið hefur einnig mikið að segja í þessu sambandi.Mikilvægt er að fylgjast reglulega með kjúkubótinni á hrossum á húsi og hefja meðhöndlun um leið og fyrstu einkenna verður vart. Dýralæknar nota venjulega fúkkalyf samhliða bólgueyðandi lyfjum við múkki og oftast dugar staðbundin meðhöndlun. Sé bólgan það mikil að hún valdi helti þurfa hrossin að fá hvíld frá þjálfun á meðan á meðhöndlun stendur og í það minnsta viku betur. Þá þarf að íhuga hvort rétt sé að minnka álagið á hrossið. Athuga ber að ekki má nota hross í keppni sem fengið hafa lyfjameðhöndlun fyrr en að ákveðnum tíma liðnum (mismunandi eftir lyfjum).

Sjá myndband þar sem dýralæknirinn Sigurjón Pálmi Einarsson sýnir hvernig vinna megi á múkki í hestum áður en það kemst á mjög alvarlegt stig  (fengið af FB síðu Gandurs).  Smyrslin frá Gandur eru frábær vara og vel valinn til meðhöndlunar á múkki.